Önnur mynt ekki tekin upp á næstu árum

Íslensku krónunni verður ekki skipt út á næstu árum.
Íslensku krónunni verður ekki skipt út á næstu árum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samráðsnefnd skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka ásamt fulltrúum ASÍ og SA telur að ekki sé hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum. Nefndin hefur afhent atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra skilabréf sitt og greinargerð.

Nefndarmenn telja að sökum þess að ekki sé hægt að gera ráð fyrir upptöku annarrar myntar á næstu árum sé mikilvægt að tryggja trausta peningastefnu með þjóðhagsvarúðartækjum og ábyrgð í opinberum fjármálum á grundvelli fjármálareglna sem taka mið af þróun efnahagslífsins.

Almennt telja nefndarmenn að á næstu árum sé sjálfstæð peningastefna eini valkosturinn og trúverðug hagstjórn sem tekur mið af aðstæðum og hagsveiflum sé grundvallaratriði. Hvað varðar valkosti til lengri tíma eru skoðanir skiptari en samstaða er um að einhliða upptaka annarrar myntar komi ekki til álita.

Efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði nefndina í mars sl. og í henni sátu Árni Þór Sigurðsson, tilnefndur af þingflokki Vinstri grænna, Freyr Hermannsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokks, Illugi Gunnarsson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokks, Lilja Mósesdóttir, tilnefnd af þingflokki Hreyfingarinnar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar, Gylfi Arnbjörnsson fyrir Alþýðusamband Íslands, Vilhjálmur Egilsson fyrir Samtök atvinnulífsins og Helga Jónsdóttir sem ráðherra fól formennsku nefndarinnar.

Nefndin hélt tug funda auk málstofu þar sem nefndarmenn reifuðu mögulega framtíðarkosti varðandi gengis- og peningastefnu til skemmri, meðallangs og lengri tíma.

Í skilabréfinu segir að nefndin hafi náð góðum samhljómi og lýsa sig reiðubúna til að halda áfram og undirbúa tillögur í gengis- og peningamálum og kynna sér þær greiningar og niðurstöður sem fram hafa komið og væntanlegar eru á næstunni um málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert