Uppstilling hjá VG í Suðurkjördæmi

Tekin var ákvörðun um það á fundi kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs í Suðurkjördæmi 14. október síðastliðinn að viðhafa uppstillingu á framboðslista hreyfingarinnar fyrir þingkosningarnar á næsta ári. Niðurstaðan var samhljóða að því er segir á heimasíðu flokksins en stefnt er að því að framboðslisti verði tilbúinn í byrjun desember.

„Á fundinum var  farið yfir stöðu VG í kjördæminu og mikilvægi þess að hreyfingin eigi þar þingmann, í það minnsta einn. Mikil samstaða einkenndi fundinn og eru vinstri græn í Suðurkjördæmi full bjartsýni og baráttuanda,“ segir ennfremur á heimasíðu VG.

Þá verður forval hjá VG í Suðvesturkjördæmi og fer það fram 24. nóvember næstkomandi. Framboðsfrestur rennur út þremur vikum fyrir forvalið en framboð ber að tilkynna til kjörstjórnar segir á heimasíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert