Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri á Útvarpi sögu segir að Jón Magnússon hafi ekki þolað að hafa konu sem sinn yfirmann og því hafi hann hætt með útvarpsþátt sinn hjá útvarpsstöðinni. Jón segir að Arnþrúður hafi verið andsnúin efnistökum þáttarins og því hafi hann ákveðið að hætta með hann.
Jón Magnússon tilkynnti á samskiptamiðlinum Facebook að hann hygðist hætta með útvarpsþátt sem hann hefur boðið upp á undanfarið ár, um verðtryggingu, á Útvarpi sögu.
Í færslunni segir Jón meðal annars. „Útvarpsstjórinn tilkynnti mér það í símtali á sunnudag eftir að andstaða mín gegn stjórnlagaráðstillögunum lá fyrir og að viðmælandi minn í kvöld ætti að vera Brynjar Níelsson hrl. að verið væri að gera breytingar á dagskránni sem útilokaði að þetta efni væri flutt. Þess sér þó ekki merki á vefsíðu Útvarps Sögu.“
Þolir ekki að kona segi honum fyrir verkum
Arnþrúður svarar honum á viðmælendakerfi á Útvarpi Sögu. Þar segir hún Jón „hagræða sannleikanum“ og að hún telji sig eiga betra skilið frá honum.
„Hann lýgur því að hann hafi talað um andstöðu sína gegn stjórnlagaráðstillögunum og að blanda Brynjari Níelssyni inn í þetta er tómt kjaftæði og aðeins til þess fallið að kasta rýrð á trúverðugleika minn og snúa þessu máli á hvolf. Þetta er lélegt af Jóni Magnússyni og ég á annað skilið frá honum. Hann einfaldlega þolir ekki að kona segi honum fyrir verkum. Kvenhatarar eru greinilega til ennþá,“ segir Arnþrúður í færslunni.
Arnþrúður segir í samtali í mbl.is að hún hafi ekki vitað að von væri á Brynjari í þáttinn. „Þetta er eðlileg dagskrárbreyting. Við erum að breyta síðdegisútvarpinu hjá okkur. Hann hefði ekki brugðist svona við ef ég hefði verið karlmaður. Þegar maður er kona að stjórna svona fyrirtæki þá leyfa menn sér mun meira,“ segir Arnþrúður.