Talsmaður neytenda hefur ekki gefið ráðherra árlega skýrslu né prentað hana eða birt opinberlega eins og lög um talsmann neytenda kveða á um.
Í Morgunblaðinu í dag segir Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, slíka heildstæða skýrslu ekki hafa verið gerða frá ári til árs síðan hann tók við embætti árið 2005.
„Það væri æskilegt að koma þessu á heildstætt form. Hins vegar birtast allar upplýsingar á vefnum flokkaðar eftir árum, mánuðum og viðfangsefnum. Þar má sjá tillögur, umsagnir og fleira. Allar upplýsingar eru birtar á vefnum nema ársreikningar,“ segir Gísli og bætir við að ráðherrar hafi ekki kallað eftir slíkum skýrslum. Auk þess hafi hann hitt alla sex ráðherra sem hann hafi heyrt undir á starfstímanum og rætt starfsemi embættisins og neytendamál þótt ekki hafi verið fundað reglulega.