Gætu keypt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki

Jón Bjarnason, alþingismaður.
Jón Bjarnason, alþingismaður. mbl.is/Árni Sæberg

Tekist er einmitt á um það í ESB-viðræðunum hvort afnema eigi takmörkun á eignarhaldi og fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi hér á landi og beygja sig þar með undir kröfur ESB,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á heimasíðu sinni.

Þar vekur hann athygli á því að samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem kosið verður um í þjóðaratkvæði næstkomandi laugardag sé fellt út ákvæði sem er í núgildandi stjórnarskrá og heimilar stjórnvöldum að „takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi“ eins og segir í ákvæðinu en slík lagasetning er í gildi hér í sjávarútvegi og felur í sér að erlendir aðilar megi ekki eiga meirihluta í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

„Með því að afnema þetta ákvæði úr stjórnarskrá opnar það verulega fyrir erlenda aðila til að fjárfesta í fasteignaréttindum hér á landi og erfiðara en áður að setja þeim skorður með lögum,“ segir Jón og bætir því við að málið vegna áhuga kínverska fjárfestisins Huang Nubo á því að kaupa jörðina að Grímsstöðum á Fjöllum ætti að sýna að frekar ætti að þrengja en rýmka þennan rétt útlendinga.

„Að mínu mati er mjög mikilvægt að halda þessu ákvæði í stjórnarskránni sem öruggri stoð fyrir setningu laga um fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi,“ segir Jón ennfremur.

Grein Jóns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert