Lægra hlutfall leikskólakennara

Leikskólabörn.
Leikskólabörn. Ernir Eyjólfsson

Sóley Tómasdóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna gagnrýnir meirihlutann í borginni vegna aukins álags á leikskólakennara sem hún segir megin ástæðu þess að fagmenntuðum í stéttinni hafi fækkað.  Hlutfall fagmenntaðra í stéttinni hefur lækkað úr 24% í 21,9% á einu ári samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra.

„Þessi þróun er í öfuga átt frá þeirri sem stefnt hefur verið að, að hækka hlutfall fagmenntaðs starfsfólks í samræmi við lög,“ segir Sóley í yfirlýsingu.   

„Á fundi skóla- og frístundaráðs í dag kom fram að hlutfall leikskólakennara hefur lækkað úr 24% í 21,9% á einu ári og ekki er að sjá að öðru fagmenntuðu starfsfólki hafi fjölgað. Þessi þróun er í öfuga átt frá þeirri sem stefnt hefur verið að, að hækka hlutfall fagmenntaðs starfsfólks í samræmi við lög.“

Segir hún jafnframt að ástæður fækkunar leikskólakennara megi rekja til aukins álags í starfi vegna þeirra breytinga sem meirihlutinn í borginni hefur staðið fyrir.

„Það er mikið áhyggjuefni að þessi mikilvæga stétt, sem hefur með óeigingjörnum hætti lagt grunninn að uppbyggingu leikskólanna í núverandi mynd, sé ekki að hækka hlutfallslega meðal starfsfólks, heldur lækka. Ástæðuna má án efa rekja, að minnsta kosti hluta hennar, til forgangsröðunar og stefnumótunar meirihluta Besta flokks og Samfylkingar sem hefur bitnað verr á leikskólakennurum en öðrum stéttum borgarinnar. Það er miður og hvetur fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði til þess að hlúð verði sérstaklega að leikskólakennurum til að koma í veg fyrir frekari flótta úr borginni.“


Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík.
Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri grænna í Reykjavík. Gunnar Svanberg Skulason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka