Lífeyrisaldur hækki í 70 ár á næstu 30 árum

Þing ASÍ er haldið á Hilton Nordica í dag
Þing ASÍ er haldið á Hilton Nordica í dag mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitt af því sem nefnd um jöfnun lífeyrisréttinda er að skoða er að hækka lífeyrisaldur úr 67 árum í 70 ár. Slík breyting myndi hins vegar gerast á löngum tíma samhliða hækkandi meðalaldri þjóðarinnar.

Þetta kom fram í ræðu sem Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, flutti á þingi ASÍ í dag, en Gunnar er formaður nefndar sem falið var að leggja fram tillögur um jöfnun lífeyrisréttinda.

Gunnar ræddi á þingi ASÍ nokkur álitamál sem nefndin hefði fengist í við störfum sínum. Hann sagði að meðalaldur þjóðarinnar væri alltaf að lengjast. Rannsóknir bentu til að hann lengdist um eitt ár á hverjum áratug. Eitt af því sem nefndin væri að skoða væri hvernig ætti að mæta þessu til að hægt væri að tryggja að lífeyrissjóðirnir gætu greitt lífeyri sem væri 76% af ævitekjum, en þá er miðað við að greitt sé iðgjald í lífeyrissjóðina í 40 ár.

Gunnar sagði að í Noregi væri miðað við að lífslíkur hvers árgangs réði greiðslum úr lífeyrissjóðum. Nefndin hefði skoðað þann möguleika að hækka lífeyrisaldur ú 67 árum í 70 ár á næstu 30 árum. Rannsóknir bentu til að þetta væri hægt að gera án þess að það hefði áhrif á réttindin.

Gunnar sagði að ljóst að ævilengd væri mismunandi milli starfsstétta og örorka sömuleiðis. Nefndin þyrfti að skoða áhrif þessa þátta þegar hugað væri að jöfnun lífeyrisréttinda. Margt benti til að áhrif þessa væru meiri en áður hefði verið talið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert