Tillaga sjálfstæðismanna um að óskað væri eftir sérfræðilegri úttekt á því hver sé heppilegasta staðsetningin fyrir nýja aðalskiptistöð strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákveðið var að Reykjavíkurborg festi kaup á Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg (BSÍ) en kaupin voru samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær. Vildu borgarfulltrúar sjálfstæðismanna fresta afgreiðslu málsins þar til slík úttekt lægi fyrir.
Tillaga sjálfstæðismanna var svohljóðandi: „Borgarstjórn óskar eftir að sérfræðileg úttekt verði gerð á því hver sé ákjósanlegasta staðsetning nýrrar aðalskiptistöðvar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun verður tekin um kaup borgarinnar á Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg (BSÍ). Í úttektinni verði þeir staðir sem helst hafa verið nefndir í þessu sambandi, t.d. Kringlan, BSÍ og Mjódd, vegnir og metnir með faglegum hætti. Skoðað verði hver sé æskilegasta staðsetning slíkrar miðstöðvar með tilliti til þess að hún þjóni sem best almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar.“
Þá gagnrýndu sjálfstæðismenn einnig í bókun kaup borgarinnar á skemmunni sem stendur við Keilugranda 1 þar sem einungis þrjú ár væru eftir af lóðarleigusamningnum þar. Vildu þeir frekar að borgin leysti umrædda lóð til sín eftir að samningurinn væri útrunninn með lágmarkstilkostnaði og ráðstafaði henni síðan til íþróttastarfsemi í Vesturbænum enda vantaði sárlega viðbótarsvæði í þágu barna- og unglingastarfs þar.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins létu hins vegar bóka eftirfarandi: „Það er sérstakt fagnaðarefni að þessar lykileignir skulu vera komnar í eigu Reykjavíkurborgar. Kaupin bjóða upp á spennandi tækifæri varðandi framtíðarskipulag á svæðunum.“