„Vill tóna niður“ ESB-umræðuna

Stefán Einar Stefánsson formaður VR.
Stefán Einar Stefánsson formaður VR. Kristinn Ingvarsson

„Ég tel að forseti Alþýðusambandsins hafi í mörgum tilvikum gengið of langt í umfjöllun um Evrópusambandið,“ sagði Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, á þingi ASÍ. Hann hvatti til þess að málflutningur ASÍ í Evrópumálum yrði „tónaður niður“.

Upphaflega var ekki fyrirhugað að leggja fram drög að ályktun um Evrópumál á þinginu í ár, en Stefán gagnrýndi það. Í framhaldi var ákveðið að leggja fram drög að ályktun fyrir þingið. Í henni segir: „ASÍ hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort hagsmunum Íslands og íslensks launafólks sé best borgið með aðild að ESB eða ekki en hefur skýra sýn á hvaða markmiðum þurfi að ná í aðildarviðræðunum til þess að hægt verði að leggja endanlegt mat á kosti og galla fullrar aðildar.“

Stefán boðaði að hann myndi leggja fram breytingartillögu á þinginu sem fæli í sér að hvatt yrði til þess að viðræðum um aðild Íslands að ESB yrði lokið svo fljótt sem kostur væri og samningurinn yrði í framhaldinu lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stefán sagðist heyra það úr sínu félagi að það væru mjög skiptar skoðanir til Evrópumálanna. Hann sagðist telja að ein ástæða þess að skoðanakannanir sýndu að traust á ASÍ væri lítið væri vegna þess að forseti ASÍ hefði aðra skoðun í Evrópumálum en 60% félagsmanna.

Stefán tók fram að hann væri ekki mæla fyrir því að stefnu ASÍ Evrópumálum yrði breytt eða reynt yrði að múlbinda forseta ASÍ. „Þingið ætti að koma þeim skilaboðum til forseta ASÍ og forystunnar almennt að hann reyndi að tóna aðeins niður þessi mál og gefa þjóðinni, meðan þetta aðildarferli er í gangi, tækifæri til að skoða þetta og færa þessa umræðu frekar inn á svið stjórnmálaflokkanna þar sem hún á heima. Ef að menn treysta sér ekki til að láta frá sér þessa umræðu þá ættu menn miklu frekar að færa sig yfir í stjórnmálaflokkana,“ sagði Stefán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert