„Fátt er gleðilegra en fæðing barns. En það er skuggi yfir gleðinni. Um leið og barn fæðist er hengdur á það þungur skuldabaggi sem að óbreyttu mun þyngjast eftir því sem barnið eldist“, segir Óli Björn Kárason í grein í Morgunblaðinu í dag.
Við sem eldri erum höfum ákveðið að færa barninu 2,4 milljóna króna skuld í vöggugjöf vegna þess að við lifum um efni fram, segir Óli Björn. Við höfum ekki treyst okkur til að taka til og neita okkur um ýmislegt sem við höfum ekki efni á. Okkur finnst þægilegra að senda reikninginn til komandi kynslóða.
Í grein sinni segir Óli Björn m.a.:„Frá því að sitjandi ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð, tók við völdum hafa verið gerðar yfir 100 breytingar á skattkerfinu. Skattar hækkaðir og nýir lagðir á. Réttlæti og sanngirni hefur ekki verið í för með ríkisstjórninni. Búið er að rústa skattkerfinu og innleiða einhvern ranglátasta skatt sem þekkist“.
Óli Björn segir að skattheimtumaðurinn fylgist vel með. Hann mæti við vöggu hvítvoðungsins til að afhenda honum skuldabagga og truflar síðan rólegt ævikvöld gamalla hjóna með því að krefja þau um hluta þess sem þau hafa eignast á langri ævi.