Áfengisneysla ekki einkamál

Áfengisdrykkja getur haft mikil áhrif á annan en neytandann, þ.e. …
Áfengisdrykkja getur haft mikil áhrif á annan en neytandann, þ.e. þá sem umgangast hann og verða á vegi hans í vímunni. AFP

Áfengi veldur samfélaginu miklu meiri skaða en nokkurt annað vímuefni. Kostnaður vegna umferðarslysa, ótímabærra dauðsfalla, sjúkdóma og ofbeldisverka sem rekja má til áfengis hleypur á milljörðum evra samkvæmt samantekt Evrópusambandsins. Áfengisdrykkja er því ekki einkamál neytandans og þeir sem líða einna helst fyrir alkóhólisma eru börn.

Þetta var meðal þess sem fram kom á fundi sem samtökin Náum áttum bauð til í gær, en þar var fjallað um áhrif áfengisneyslu á aðra en neytandann sjálfan. Rafn Jónsson, verkefnastjóri áfengis- og vímuvarna hjá Landlæknisembættinu, sagði að Evrópulönd væru í auknum mæli farin að áætla samfélagskostnað áfengisneyslu, m.a. út frá því sem kalla mætti „óbeina áfengisdrykkju“, þ.e. afleiðingar sem aðrir en neytandinn verða fyrir, líkt og með óbeinar reykingar. Er þar ekki síst horft til barna. 

Ótrúlega góð í að verja foreldra sína

Börn alkóhólista eru að vissu leyti ósýnilegur hópur en áhrif sjúkdómsins á þau eru oft vanmetin. Á mbl.is var í gær birt frásögn stúlku sem ólst upp í skugga áfengissýki föður síns. Lárus Blöndal, sálfræðingur hjá SÁÁ, segir börn alkóhólista gjarnan upplifa að þau séu ein í heiminum. Innifalið í alkóhólisma er þetta með skömmina og að segja ekki frá. Börn alkóhólista eru venjuleg börn, en þau hafa sértæka þekkingu og þjálfun í einu, og það er að láta engan vita að þau séu börn alkóhólista. Þau eru ótrúlega góð í því að verja foreldra sína.“

Lárus sagði að í alkóhólískum fjölskyldum myndaðist jafnan þögult samkomulag um að ræða ekki vandann og sýna ekki tilfinningar. Þetta getur haft langvarandi áhrif á barnið, jafnvel litað alla ævi þess. Lárus benti á að mikill meirihluti þeirra sem þurfi aðstoðir stofnana s.s. geðsviðs Reykjalundar væru fullorðin börn alkóhólista. 

Börn skilja ekki neitt, en skynja allt

Of algengt er að sögn Lárusar að fullorðnir vanmeti áhrif erfiðra atburða á börn og telji þau of lítil til að skynja þá. „Þegar maður er barn er grundvallaratriði að fá staðfestingu á því sem maður upplifir. Börn eru stöðugt að lesa í það sem er í gangi hjá foreldrunum, þau skynja að það sé eitthvað að, en fá ekki staðfestingu á því. Börn skilja ekki neitt, en þau skynja allt.“

Lárus minnti á að alkóhólistar væru líka venjulegt fólk. Hann sagði 90% Íslendinga 15 ára og eldri drekka áfengi, en enginn viti þegar hann tekur fyrsta sopann hvort hann sé alkóhólisti eða ekki. „Vandinn læðist aftan að manni. Það ætlar sér enginn að verða alkóhólisti. Foreldrar sem glími við áfengisvanda elski börnin sín og vilji vera þeim gott foreldri en geti það oft ekki.

„Það sem reynir mest á börn er óöryggi og óvissa. Þetta kemur svo fram í hegðunar- og samskiptaerfiðleikum, erfiðleikum með nám og einbeitingu í skóla, brotinni sjálfsmynd, félagslegri einangrun. Börn sýna innri líðan í ytri athöfnum, í hegðun, en mörg þeirra tala aldrei um það.“ Lárus sagði algengt að börn alkóhólista væru þjökuð af hugsunum um ástand heimilisins. „Það er erfitt að vera í skóla og vera með hugann við það allan tímann hvernig það verður að koma heim. Það er erfitt að einbeita sér við slíkar aðstæður.“

Ekki einkamál þess sem drekkur

Rafn Jónsson sagði að meiri áherslu þyrfti að leggja á að skoða óbein áhrif áfengisneyslu. Hann sagði umræðuna oft einkennast af því að áfengisneysla sé einkamál neytandans. Málið sé hins vegar flóknara en svo. 

„Áfengisdrykkja er þriðji stærsti áhættuþáttur í heiminum fyrir ótímabærum dauðsföllum. Samt drekkur stór hluti fólks ekki áfengi,“ benti Rafn á. Á Íslandi líkt og annars staðar er   áfengisdrykkja mjög afdrifarík fyrir samfélagið. Á tímabilinu 2004-2008 mátti t.d. rekja 48% af banaslysum í umferðinni til ölvunar og 28% af öðrum umferðarslysum. 51% þeirra sem komu á bráðamóttöku Landspítala um helgar voru undir áhrifum áfengis og má ætla að samanlagt felist í þessu tugmilljarða kostnaður á hverju ári.

„Við erum að tala um gríðarlegan kostnað, þannig að það fer ekkert á milli mála að þetta er ekki einkamál neytandans,“ sagði Rafn.

Lærði að hætta að skammast sín

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert