„Það er ótrúleg óskammfeilni að halda því fram að stjórnarskráin okkar sé ekki íslensk, eins og hvað eftir annað heyrist í umræðunni, jafnvel í sölum Alþingis og það séu því sérstök rök fyrir því að varpa henni fyrir róða. Hún hefur verið grundvöllur stjórnskipunar okkar allan lýðveldistímann frá árinu 1944“, segir Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Í grein sinni segir Einar K. meðal annars: „Samstaða um þessa grundvallarskipan stjórnskipunar okkar hefur einkennt allan lýðveldistímann. Að sönnu hafa verið gerðar ýmsar breytingar á henni í rás tímans, meðal annars á kosningafyrirkomulagi og kjördæmaskipan. Leiðarljósið hefur verið að vinna að slíkum breytingum í eins mikilli sátt og frekast hefur verið unnt. Það er skynsamlegt“.
Ekkert kallar á að núverandi stjórnarskrá sé kastað á glæ, eins og nú er verið að gera, segir Einar Kristinn. Þvert á móti. Hún hefur reynst vel og verið þegnum landsins gott skjól og góð vörn.