Þing ASÍ felldi í dag tillögu um að forseti ASÍ yrði kosinn beinni kosningu. 50 samþykktu tillöguna eða 19% en 210 sögðu nei eða 81%.
Tillagan kom frá stjórn og trúnaðarmannaráði Verkalýðsfélags Akraness. Miklar umræður urðu um tillöguna. Margir sem til máls tóku sögðu gott fyrir ASÍ að ræða um lýðræðislega uppbyggingu sambandsins, en þá þyrfti líka að ræða málið í heild sinni og hvort byggja ætti áfram á fulltrúaráðsfyrirkomulagi sem ASÍ hefur byggt á frá stofnun sambandsins árið 1916 eða hvort taka ætti almennt upp persónukjör.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði að frá hruni hefði orðið umtalsverð lýðræðisvakning á meðal almennings hér á landi. Ákall hefði komið frá þjóðinni um aukið lýðræði. Það hefði líka verið ákall á meðal hins almenna félagsmanns innan ASÍ að lýðræði í verkalýðshreyfingunni verði aukið og m.a. er lýtur að kjöri forseta Alþýðusambands Íslands. Í dag er kosningafyrirkomulag skv. lögum ASÍ með þeim hætti að forsetinn er kosinn inni á þingum sambandsins á tveggja ára fresti. Á þinginu sitja tæplega 300 manns.