Ingibjörg Óðinsdóttir gefur kost á sér í 4.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar í vor.
Ingibjörg er með MBA frá HÍ með áherslu á stjórnun og mannauðsmál og BSc. í blaða- og fréttamennsku frá Bandaríkjunum. Hún hefur lengst af starfað sem mannauðsstjóri og starfsmanna- og stjórnunarráðgjafi en var jafnframt blaðamaður um tíma. Ingibjörg hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, situr m.a. í miðstjórn flokksins, er í stjórn velferðarnefndar og í hverfisráði Grafarvogs. Hún er jafnframt varamaður í mannréttinda- og velferðarráði og hefur setið í ýmsum starfshópum á vegum borgarinnar.
„Atvinnuleysi, há skattlagning og landflótti bæði einstaklinga og starfsstétta er mikið áhyggjuefni og þeirri þróun vil ég taka þátt í að snúa við. Einnig þarf að forgangsraða betur í heilbrigðismálum og bæta stöðu aldraðra. Fólki er í dag allar bjargir bannaðar og biðin eftir lausnum ólíðandi. Það er löngu orðið ljóst að núverandi stjórn er ekki fær um að koma með lausnir á þeim vandamálum sem við blasa og því tímabært að að skipta henni út. Ég er reiðubúin til þess að leggja mitt af mörkum til þess að skapa hér betri aðstæður og fleiri tækifæri,“ segir í tilkynningu frá Ingibjörgu.