Icesave ekki knúið í þjóðaratkvæði

Frá Icesave-kosningum.
Frá Icesave-kosningum. Kristinn Ingvarsson

Sigríður Andersen héraðsdómslögmaður og einn stofnenda Advise sem barðist gegn Icesave-skuldbindingunum bendir á að almenningur hefði ekki getað knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn ef tillögur stjórnlagaþings um  þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu verið við lýði. 

Sigríður bendir á að í í 67. gr. í tillögum stjórnlagaráðs segi:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

„Maður veltir því fyrir sér hver tilgangurinn er með þessu nýja ákvæði. Það sem stjórnlagaþingið er að gera er að búa til kerfi utan um þjóðaratkvæðagreiðslur. En atkvæðagreiðslunum er ekki ætlað að grípa mikilvægustu málin,“ segir Sigríður. 

„En svo því sé haldið til haga þá er áfram gert ráð fyrir því að forsetinn geti skotið slíkum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Sigríður.
 
Hún segir að þrátt fyrir að tillögur stjórnlagaráðs séu ýtarlega útskýrðar sé hvergi minnst á það hvers vegna ekki megi kjósa um þá hluti sem eru í 67. greininni. 

Næstkomandi laugardag verður kosið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert