Samfylkingin „urraði“ á VG

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður sakaði andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu innan VG um að fylgja orðum sínum ekki eftir. Það hefði dugað Samfylkingunni að „urra“ á þá.

Einar vísaði til yfirlýsinga ráðherra VG frá því í ágúst um að endurskoða þyrfti aðildarviðræðurnar við ESB. Þá hefði því verið lýst yfir að endurmeta þyrfti málið. Einar spurði Ögmund Jónasson innanríkisráðherra hvort þessu endurmati væri lokið?

Ögmundur minnti Einar á að þeir væru sammála í þessu máli. Báðir væru andsnúnir aðild og vildu fá niðurstöðu í málið sem fyrst. Hann gagnrýndi Einar fyrir að reyna að sundra samstöðu þeirra í málinu.

„Ég er fylgjandi því að slíkt endurmat fari fram og hef vakið máls á því og tekið upp slíka umræðu  innan þess stjórnmálaflokks sem ég tilheyri, Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Umræðan hefur að sönnu staðið yfir um alllangt skeið. Hún hefur ekki verið nægilega markviss að mínu mati,“ sagði Ögmundur og bætti við að þessu endurmati væri ekki lokið.

Ögmundur sagði að við gætum ekki farið með þetta mál inn í næsta kjörtímabil. Skuldbinding um þetta mál næði aðeins til þessa kjörtímabils.

Einar sagði greinilegt á svörum Ögmundar að yfirlýsingar hans og annarra ráðherra VG í sumar um endurmat hefðu aðeins verið „til heimabrúks“.

Ögmundur svaraði og sagði: „Margur heldur mig sig“.

Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Kristinn Guðfinnsson mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka