Slysahætta í Norðurljósaskoðun

Norðurljós yfir Straumsvík í Hafnarfirði.
Norðurljós yfir Straumsvík í Hafnarfirði. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Einhver brögð hafa verið á því að rútum fullum af ferðamönnum sé lagt við hættulegar aðstæður á vegum landsins, t.d. í vegkanti, til þess að farþegarnir fái notið ljósadýrðar norðurljósanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Umferðarstofu. Þess eru dæmi að ferðamennirnir séu illsjáanlegir á göngu í kringum rúturnar í myrkrinu.  Oft virðist tilviljun ein ráða því hvar stoppað er. Ökumaður sem átti leið um Hvalfjörð sendi tölvupóst til Umferðarstofu, þar sem segir meðal annars:

„Ég fór um Hvalfjörðinn um kl 22:00 í gærkvöldi og ók þar fram á tugi ferðamanna sem voru að skoða norðurljósin, þarna voru tvær stórar rútur í vegkantinum og tugir ef ekki yfir 100 mans nánast standandi á veginum og einn sat í vegkantinum og myrkrið var algjört, ekkert endurskin eða neitt.

Í ofanálag fyrir mig að aka að þessu í myrkrinu var aðstaðan þannig að þetta er í beygju og ljósin hjá mér lýstu ekki á fólkið fyrr en ég kom inn í beygjuna og þurfti ég að bremsa harkalega, enda brá mér verulega að aka framá þetta grandalaus. Hefði verið hálka eða athygli mín verið við annað þannig að ég hefði ekki bremsað fyrr en nokkrum metrum lengra hefði allt annað getað gerst.“

Umferðarstofa tekur undir áhyggjur þessa ökumanns og vill hvetja ferðaþjónustuaðila, sem bjóða upp á þessar skoðunarferðir að setja öryggi farþega og annarra vegfarenda í öndvegi með því að leggja bifreiðunum á öruggan stað. Það á að vera hægt að tryggja það að ferðamenn komist til síns heima með óspillta og áfallalausa minningu um töfrandi ljósadýrð norðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka