Yfir 8.600 búnir að kjósa utan kjörfundar

Hægt er að kjósa utan kjörfundar í Laugardalshöll frá kl. …
Hægt er að kjósa utan kjörfundar í Laugardalshöll frá kl. 10 til 22 í dag og á morgun. Einng frá kl. 10-17 á kjördag fyrir þá sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Ernir

Yfir 8.600 manns hafa tekið þátt í utankjörfundaratkvæðagreiðslu vegna ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs hjá öllum sýslumönnum landsins. Í Reykjavík hafa rúmlega 5.000 kosið utan kjörfundar, en yfir 500 hafa kosið í Laugardalshöll í dag.

Ef utankjörfundaratkvæðagreiðslan er borin saman við þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2011 þá voru um 9.000 búnir að kjósa í Reykjavík miðað við sama tíma. Eru aðsend atkvæði einnig talin með en mikill meirihluti þeirra kemur erlendis frá.

Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík, segir að sífellt fleiri nýti sér þann rétt að kjósa utan kjörfundar í stað þess að greiða sitt atkvæði á sjálfan kjördag. Fyrir um áratug var samþykkt lagabreyting sem kveður á um að kjósendur eigi rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar eftir að kjördagur hefur verið auglýstur og til kjördags.

Bergþóra bendir á að breyting á ákvæðum kosningalaga um aðstoð við fatlaða kjósendur hafi tekið gildi í dag. Breytingin nær einungis til kjósenda sem ekki eru færir um að árita kjörseðla á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að þeim er hönd ónothæf.

Erfitt er að segja til um það hver kjörsóknin verði nk. laugardag. „Það má ætla að það verði ekki mikil kjörsókn miðað við þessar tölur sem eru hjá okkur, en það þarf ekki að vera Vegna þess að fólk er nú kannski bara heima hjá sér og fer á kjördag,“ segir hún.

Þá er erfitt að bera þessa atkvæðagreiðslu við þátttökuna í forsetakosningunum í sumar, en þá kusu margir utan kjörfundar þar sem þeir voru á faraldsfæti vegna sumarleyfa.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar á vegum embættis sýslumannsins í Reykjavík færðist úr Skógarhlíð 6 yfir í Laugardalshöll 10. október sl. Aðspurð segir Bergþóra að allur undirbúningur og skipulag atkvæðagreiðslunnar hafi gengið vel. Þá gengur atkvæðagreiðslan hratt fyrir sig þó að það taki kjósendur lengri tíma að svara öllum sex spurningunum sem séu á kjörseðlinum.

Bergþóra segir utankjörfundaratkvæðagreiðslan í Laugardalshöll standi frá kl. 10 til 22 í dag og á morgun. Svo frá kl. 10 til 17 á kjördag fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Kosningavefur innanríkisráðuneytisins.

Nánar um þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Sýslumenn á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert