Gylfi endurkjörinn forseti ASÍ

Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson. mbl.is/Rax

Gylfi Arnbjörnsson var í morgun endurkjörinn forseti Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins, sem nú stendur yfir. Gylfi fékk 183 atkvæði, eða 69,8%, en Ragnar Þór Ingólfsson, stjórnarmaður í VR, fékk 79 atkvæði eða 30,2%.

Ragnar og Gylfi fluttu framsöguræðu fyrir kosninguna. Gylfi sagði að hann hefði heyrt að sumir ræðumenn á þinginu hefðu talað um að hann hlustaði ekki nægilega mikið á félagsmenn. Hann sagðist hafa lagt sig fram um að ræða við félagsmenn á þeim fjórum árum sem hann hefði gegnt embætti forseta enda hefði hann mikla ánægju af þeim. Hann sagðist hins vegar taka mark á þessari gagnrýna og hann kæmi því til með að leggja enn meiri áherslu á að ræða við félagsmenn.

Ragnar gagnrýndi Gylfa fyrir að hlusta ekki á félagsmenn. Hann hefði ekki hlustað á gagnrýni varðandi verðtryggingu, ESB, Icesave, kaupmátt og fleira. Traust á ASÍ „skrapaði botninn“ eins og komið hefði fram í skoðanakönnunum og á því bæri Gylfi sína ábyrgð.

Gylfi var fyrst kjörinn forseti ASÍ haustið 2008. Hann var endurkjörinn á ársfundi ASÍ fyrir tveimur árum og hlaut þá tæplega 73% greiddra atkvæða en Guðrún J. Ólafsdóttir frá VR fékk 27% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert