„Forvígismenn frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár hafa haldið því fram að í raun feli frumvarpið aðeins í sér tæknilega útfærslu á niðurstöðum þjóðfundar sem haldinn var 6. nóvember 2010“, segir Ágúst Þór Árnason, fv. nefndarmaður í stjórnlaganefnd, í grein í Morgunblaðinu í dag. Frumvarp stjórnlagaráðs sé því birtingarmynd þjóðarviljans, eins og hann hafi birst á fundinum. Efist menn um ágæti frumvarpsins standa menn þá frammi fyrir því að efast um rétt þjóðarinnar til að ráða stjórnskipun sinni til lykta. Við þennan málflutning verður að gera alvaralegar athugasemdir, segir Ágúst Þór.
Ágúst Þór segir að andstætt því sem skilja mátti af orðum formanns stjórnlaganefndar, Guðrúnar Pétursdóttur, í Fréttablaðinu 12. október hafi aðdragandi þjóðfundar 2010 verið mjög stuttur, allur aðbúnaður af skornum skammti og sú aðferðafræði sem notuð var hrein tilraunastarfsemi í þessu samhengi.
Í niðurlagsorðum greinar sinnar segir Ágúst Þór: „Frumvarp stjórnlagaráðs er hvorki niðurstaða þjóðfundar 2010 né einhvers konar birtingarmynd þjóðarviljans. Frumvarpið er verk 25 manna sem sátu í stjórnlagaráði, verk sem ekki er hafið yfir gagnrýni“.