Skarphéðinn Pétursson, lögmaður Borgarbyggðar í málaferlum gegn Arion banka, segir að fólk sem hafi ofgreitt lán á grundvelli endurútreikninga á gengistryggðum lánum sem nú hafi verið dæmdir ólögmætir, eigi að senda kröfubréf á viðkomandi fjármálastofnun. „Og það sem allra fyrst því þá byrja að reiknast dráttarvextir og bankarnir verða að flýta sér,“ segir hann.
Skarphéðinn, sem er hæstaréttarlögmaður hjá Veritas-lögmönnum, segir að með dómi Hæstaréttar í gær sé alveg skýrt að ekki standist að endurreikna ólögmæt genislán í samræmi við lög sem sett voru í árslok 2010 og hafa verið kennd við Árna Pál Árnason, þáverandi efnahagsmálaráðherra.
Enginn vafi eigi lengur að ríkja um hvernig reikna eigi út ólögleg gengistryggð lán. Sé lánið ólöglegt verði að miðað við samningsvexti. Í minnihluta tilvika hafi verið um að ræða lögleg lán í erlendri mynt en það eigi aðeins við um lítinn hluta lánanna.
Skarphéðinn segir að mestu áhrifin af dómnum í gær séu þau að bankarnir verði nú að skrifa niður eignir sínar um tugi milljarða vegna lána til fyrirtækja og einstaklinga. Að öllum líkindum myndist þó ekki krafa á hendur bankanna vegna þeirra. Öðru máli gildi um bílalán og önnur lán sem voru komin nærri lokagjalddaga, þau hafi greinilega verið ofgreidd, hafi þau verið endurreiknuð á grundvelli fyrrnefndra laga. „Þá myndast krafa á viðkomandi lánastofnun og það er mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki og almenning, ef þau eru með svona lán, að koma kröfubréfi af stað,“ segir Skarphéðinn. Þá byrji dráttarvextir að leggjast ofan á kröfuna sem reki á eftir bönkunum að ljúka málinu.
Ef fólk eigi kröfu á leiðréttingu lána eigi fólk að krefjast þess af lánveitanda sínum að hann reikni út lánið í samræmi við dóminn frá því í gær. Um leið lækki höfuðstóll og greiðslur. „Fólk verður að drífa sig af stað, og nógu margir, til að það hreyfi við bönkunum,“ segir hann. Tafirnar megi ekki standa í tvö ár í viðbót.
Skarphéðinn segir málið risavaxið. Á grundvelli reiknireglu sem hafi verið leidd af óskiljanlegum ákvæðum laganna hafi bankar reiknað út gengistryggð lán og á þeim grundvelli hafi þeir „yfirtekið eða eyðilagt“ fjölmörg lítil, meðalstór og stór fyrirtæki. „Þetta byggist allt á ólögmætum forsendum. Þetta er risamál,“ segir hann.
Reiknireglan sem sé í lögunum hafi verið óskiljanleg og hann bendir á að bankarnir hafi ekki getað byrjað að endurreikna fyrr en þeir höfðu leitað til Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands um hvernig ætti að reikna lánin upp á nýtt.
Skarphéðinn telur að bankarnir geti ekki lengur borið fyrir sig að enn ríki mikil óvissa um hvernig ætti að reikna út gengistryggð lán. Í bönkunum störfuðu margir góðir lögfræðingar og hann gæti ekki séð hvernig þeir gætu verið í nokkrum vafa um fordæmisgildi dómsins. „Ég spái því að hvort sem það verði í dag, um helgina eða í næstu viku þá komi einhverjar yfirlýsingar frá bönkunum,“ segir hann. Þeir muni veifa hvíta flagginu og gefast upp.
Um fyrrnefnd lög segir Skarphéðinn að gagnrýni á þau verði að vera málefnaleg. Þau hafi verið samin undir mikilli pressu og á óvissutímum. „En að menn hafi ekki séð að áhrif lútreikningsaðferðarinnar sem var kynnt í þessum lögum hafi verið bönkunum í vil en ekki lántakendum. Það er mér óskiljanlegt,“ segir hann.