„Þetta sumar reyndu einhverjir dómaranna að fá aðra til að sækja um stöðuna til að hindra að ég yrði skipaður. Einn þeirra hafði meira að segja í hótunum við mig og sagði að ég yrði skaðaður með umsögn Hæstaréttar ef ég drægi ekki umsókn mína til baka!“
Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins þar sem hann ræðir meðal annars um samskipti sín við aðra hæstaréttardómara.
Jón Steinar, sem nú hefur látið af störfum við Hæstarétt, segist hafa komið inn í réttinn á sínum tíma í því skyni að láta til sín taka. „Ég fann fyrir mótbyr og andúð annarra dómara og ákvarðanir voru teknar án aðildar minnar. Þar sannaðist að mínum dómi sú regla að sá sem gert hefur öðrum vísvitandi rangt hefur eftir það oft tilhneigingu til að réttlæta háttsemi sína í samskiptum við hann. Svo mættu menn á fundi og lögðu fram tillögur um það sem þeir höfðu þegar ákveðið sín á milli. Þetta eru vitaskuld ólíðandi vinnubrögð sem engin ástæða er til að þegja um.“