Eftir að hafa farið hægt af stað jókst kjörsókn töluvert þegar líða tók á daginn. Þannig var hún 39,68% í Reykjavík suður kl. 20 og 38,54% í Reykjavík norður. Í Norðurþingi var kjörsókn 40% - með utankjörfundaatkvæðum - en á Akureyri 33,6% og Fjarðabyggð 33,7%.
Eins og kunnugt er snýst þjóðaratkvæðagreiðslan um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.
Í Reykjavík suður höfðu 17.886 kosið kl. 20 sem er 39,68%. Á sama tíma í stjórnlagaþingskosningunum var þátttaka hins vegar 30,81%. Svipaða sögu er að segja í Reykjavík norður þar sem 17.462 höfðu kosið kl. 20, eða 38,54%, en á sama tíma í stjórnlagaþingskosningunum var kjörsókn 28,37%
Enn eru eftir að berast tölur úr Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Frá Suðurkjördæmi fengust þó þær upplýsingar að kjörsókn væri í daprara lagi.
Þá er hvorki tekin saman heildartala yfir kjörsókn í Norðvesturkjördæmi eða Norðausturkjördæmi. Hins vegar hafa 4.513 kosið á Akureyri, eða 33,6%, Í Fjarðabyggð var 33,7% kjörsókn og 36% í Norðurþingi en 40% með utankjörfundaatkvæðum.
Kjörstöðum verður lokað klukkan 22 í kvöld og fyrstu tölur ættu að berast upp úr kl. 23.