Í dag verður kosið í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá. Talning atkvæða verður tímafrek en fyrstu tölur verða birtar kl. 23.
Kjörstaðir voru opnaðir kl. 9 í Reykjavík en víðast annars staðar á landinu verða þeir opnaðir kl. 10. Hér má finna lista yfir kjörstaði og opnunartíma þeirra og hér má finna ýmsa tengla á þjónustu vegna kosninganna.
„Þetta fer eftir kjörsókn, fyrst og fremst,“ segir Sveinn Sveinsson, formaður yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður, um það hversu langan tíma talning atkvæða í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í dag muni taka. Formenn annarra kjörstjórna taka í sama streng en ekki verður viðhöfð sama aðferð við talningu í öllum kjördæmum.
Flestir kjörstaðir á landinu verða opnaðir milli kl. 9 og 13 í dag en þeim verður öllum lokað kl. 22. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru alls 236.944 kjósendur á kjörskrá, þar af 118.833 konur og 118.111 karlar. Þegar kosið var til Alþingis 2009 voru kjósendur á kjörskrá 227.843 og hefur þeim fjölgað um 4%.
Spurningarnar á kjörseðlinum eru sex og hægt er að svara hverri þeirra með já-i eða nei-i. Katrín Theódórsdóttir, formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, segir að búast megi við því að talning verði mun tímafrekari en í öðrum kosningum en tvær aðferðir verða viðhafðar við talninguna.
Í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi verður farið yfir allar spurningarnar sex á hverjum kjörseðli fyrir sig og þannig verður hver og einn seðill afgreiddur í einu lagi. Í Suðvesturkjördæmi, Norðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmum norður og suður verður hins vegar farið yfir hverja spurningu á seðlinum fyrir sig. Sums staðar ætla menn að byrja á því að fara yfir fyrstu spurninguna á kjörseðlinum og svo koll af kolli en á öðrum stöðum verður hver spurning talinn við sitthvort borðið.
Katrín segir að þannig verði úrslit kynnt fyrir hverja spurningu fyrir sig þegar á líður í Reykjavíkurkjördæmi norður en ekki hvernig staðan er á hverjum tíma fyrir allar spurningarnar.
Sveinn vonast til þess að hægt verði að birta fyrstu tölur um klukkustund eftir að talning hefst en menn hugsi þó fyrst og fremst um að tryggja örugga talningu. „Við erum bjartsýn á að klára þetta undir morgun,“ segir Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, en hann gerir ráð fyrir að fyrstu tölur úr kjördæminu verði birtar um kl. 23.
Páll Hlöðversson, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, segir hraða talningarinnar velta á því hvenær kjörkassar skila sér í hús.
Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins geta greitt atkvæði í Laugardalshöll milli kl. 10 og 17 í dag en á hádegi í gær höfðu alls um 12.300 kosið utan kjörfundar.