Farið var yfir nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka hf. á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær.
„Það er ljóst að dómur Hæstaréttar í gær hefur skýrt mjög verulega ýmis álitaefni sem annars hefði tekið langan tíma að leysa úr,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, spurður út í niðurstöður fundarins.
Að sögn Helga kemur það skýrt fram í dóminum að fordæmið nær til flestra lögaðila því að sá lögaðili sem þarna hafi átt hlut að máli, Borgarbyggð, velti yfir tveimur milljörðum króna og sé með yfir tvö hundruð starfsmenn í vinnu en sé samt talinn hafa lakari stöðu en sparisjóðurinn sem hann var að semja við.
Þá bendir Helgi á að sömuleiðis sé skýrt á dómnum frá hvaða tímapunkti endurreikningurinn miðast við í þessu máli og að það skýrist með hvaða hætti eigi að fara með greiðslur inn á höfuðstólinn. „Þannig að þó að enn sé deilt um tiltekin lánaform eða hvort þetta nái til afmarkaðra lánaflokka þá sé ég ekki betur en að bankarnir geti hafið endurútreikning á ólögmætum gengistryggðum lánum í framhaldi af þessum dómi,“ segir Helgi.