Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda í gær, var samþykkt ályktun þar sem inngöngu Íslands í Evrópusambandið er alfarið hafnað og aðildarumsókninni mótmælt.
Þá var samþykkt harðyrt ályktun um veiðigjöld en þar segir m.a. „Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda beinir því til aðalfundar LS að félagið berjist af mikilli hörku gegn þeirri ofurskattlagningu í formi veiðigjalda sem stjórnvöld hafa nú lagt á sjávarútveginn og mun smám saman draga allan mátt úr greininni og verða til þess að íslenskur sjávarútvegur mun dragast aftur úr keppinautum sínum erlendis.“
Þá lýsti aðalfundurinn yfir stuðningi við hugmyndir Arthurs Bogasonar, formanns LS, um rannsókn á auðlindagjaldinu, og að fengið verði lögfræðilegt álit á því hvort sérstakt veiðigjald standist lög og stjórnarskrá.