„Við erum góðar!“

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við erum góðar!“ segir Katrín Jakobsdóttir, ráðherra íþróttamála, um íþróttaafrek íslenskra kvenna í dag. Fyrst varð stúlknaliðið í hópfimleikum Evrópumeistari, næst tryggði kvennalandsliðið sér Evrópumeistaratitilinn í sömu grein og að lokum vann landsliðið í knattspyrnu góðan sigur á Úkraínu.

Katrín sem fylgdist með hópfimleikunum segir frábært að sjá þá þróun sem orðið hefur á undanförnum árum. „Við megum vera ákaflega stolt og það er ljóst að framtíðin er björt í fimleikunum. Það er svo frábært að sjá hvernig uppbyggingarstarfið hefur skilað sér með svona afbragðs árangri.“

En það var ekki aðeins í fimleikum sem íslenskt kvenfólk vann afrek. Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu lagði Úkraínu að velli, 3:2, í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti í lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu. Liðin mætast aftur á Laugardalsvellinum á fimmtudaginn og þá nægir Íslandi jafntefli, jafnvel eins marks tap, til að komast í lokakeppnina í Svíþjóð næsta sumar.

„Þetta er kvennadagur,“ segir Katrín og bætir við að þjóðin sé ótrúlega spennt fyrir síðari leiknum á fimmtudag enda eigi íslenska liðið góðan möguleika á að komast áfram. „Þetta lofar mjög góðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert