Engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki eða tjón á eignum vegna jarðskjálftahrinunnar sem hófst í gær úti fyrir Norðurlandi. Stærsti skjálftinn mældist 5,2 stig og varð hann kl. 1.25 í nótt. Hann fannst um allt Norðurland og víðar. Skjálftarnir eiga upptök sín um 20 km norður af Siglufirði. Skjálftanir eru svokallaðir brotaskjálftar og eru ekki undanfari eldsumbrota.
Hrinan hófst skömmu fyrir miðnætti og nokkur hundruð skjálftar hafa mælst. Þessi jarðskjálftahrina er framhald hrinu sem byrjaði í september, að því er fram kemur í upplýsingum almannavarna.
Jarðskjálftar á þessu svæði eru nokkuð algengir og árin 1996 og 2004 voru svipaðar jarðskjálftahrinur. Ekki er hægt að segja fyrir um hversu lengi þessi hrina mun standa yfir né er hægt að útiloka fleiri skjálfta af stærðinni 4 eða hærri.
Fyrir þá landsmenn sem búa á eða við þekkt jarðskjálftasvæði er þetta gott tækifæri til þess að velta fyrir sér hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að draga úr tjóni og minnka líkur á slysum vegna jarðskjálfta.
Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.
Varnir fyrir jarðskjálfta má finna hér.
Viðbrögð við jarðskjálfta má finna hér.