Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Ég varð fyrir vonbrigðum með þessa niðurstöðu sem kom fram í gær,“ segir Egill Óskarsson, formaður Vantrúar, um þá niðurstöðu þjóðarinnar að þjóðkirkjan skuli áfram skilgreind sem slík í stjórnarskrá.
Kom niðurstaðan á óvart?
„Í rauninni gerði hún það því við höfum verið að fylgjast með skoðanakönnunum Gallup í gegnum tíðina og þær hafa samfellt síðan 1996 sýnt meirihlutastuðning við aðskilnaði ríkis og kirkju og seinustu þrjú ár í kringum 75% stuðning við aðskilnað þannig að jú þetta kom frekar mikið á óvart ef ég á að segja alveg eins og er.“
Hvað skýrir þá þessi úrslit?
„Það sem ég hef verið að velta fyrir mér er hvort að kjörsóknin geti skýrt þetta að einhverju leyti, að kirkjan hafi náð að kveikja í sínu fólki og fá það til þess að mæta á kjörstað. Í hópi þeirra sem ekki mættu hafi kannski verið margir sem vilji aðskilnað en hafi ekki mætt á kjörstað. Það er eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér.
Svo náttúrlega það sem við höfum verið að benda á líka er að kirkjan eyddi töluverðum fjármunum í að útbúa kynningarvef sinn og auglýsa hann í fjölmiðlum fyrir kosningarnar. Því var náttúrlega ekki fyrir að fara hjá aðskilnaðarsinnum. Það voru örfáar útvarpsauglýsingar frá Siðmennt, en annars ekki neitt sem kostaði eitthvað.“
Kemur þetta til með að breyta eitthvað ykkar baráttu?
„Nei, ég hugsa ekki. Okkur finnst þetta ennþá snúast um mannréttindi, að það sé ekki einu trúfélagi og einni lífsskoðun gert hærra undir höfði heldur en öðrum. Það í sjálfu sér breytist voða lítið við þessa niðurstöðu. Hún er vonbrigði og við erum að velta þessu fyrir okkur ennþá.“