„Þessi kosning er vísbending. Ég tel að þessar niðurstöður sýni fyrst og fremst að fólk telur mikilvægt að breyta stjórnarskránni og í sjálfu sér er enginn ágreiningur um það á þinginu þar sem málið verður leitt til lykta á endanum,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var inntur eftir fyrstu viðbrögðum við tölum úr ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar.
„Það er umhugsunarefni að kosningaþátttakan sé ekki meiri en raun ber vitni og það er líka mikið umhugsunarefni þegar um stjórnarskrána er að ræða, grundvallarlög samfélagsins að þriðji hver maður sem þátt tekur í kosningunni telji tillögurnar ekki fullnægjandi grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Það sýnir mikla óeiningu að mínu áliti um málið,“ segir Bjarni.
„Það verður að koma í ljós hvaða áhrif niðurstaðan kemur til með að hafa meðal annars í ljósi þess að forystumenn stjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að þeir útiloki engar efnislegar breytingar á málinu,“ sagði Bjarni.