„Ég er í fyrsta lagi mjög ánægður með kosningaþátttökuna, ég tel að hún sé góð í ljósi þess að um ráðgefandi atkvæðagreiðslu er að ræða og það er búið að kjósa mikið á Íslandi að undanförnu þannig að einhverjir eru kannski orðnir þreyttir á því, þá voru náttúrlega ákveðnir tilburðir uppi til að draga úr vægi þessara kosninga í umræðunni um aðdraganda þeirra en það hefur greinilega mistekist,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, spurður út í fyrstu viðbrögð vegna niðurstaðna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur stjórnlagaráðs sem fram fór í gær.
Steingrímur bætir við að þjóðin hafi tekið þetta tækifæri sitt alvarlega. „Hún hefur skilað sér á kjörstað og skilað skýrum skilaboðum, þannig að ég tel að við ættum öll að geta verið ánægð með það,“ segir Steingrímur.