Ekki stendur til eins og sakir standa að auka hámarkshraða á Reykjanesbrautinni í 110 kílómetra hraða á klukkustund og mun innanríkisráðuneytið ekki beita sér fyrir því. Þetta kom fram í máli Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra á Alþingi í dag en þar brást hann við fyrirspurn frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Ögmundur lagði þó áherslu á að það væri hins vegar ekki útilokað um alla framtíð heldur væri það háð því að nauðsynlegum öryggisráðstöfnum væri fyrst fullnægt vegna Reykjanesbrautarinnar meðal annars með tilliti til vegriða.
Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi tóku þátt í umræðunni auk Þorgerðar Katrínar, þær Ragnheiður Elín Árnadóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir, og lögðu áherslu á mikilvægi þess að auka umferðaröryggi á Reykjanesbrautinni. Einnig tók Birgir Þórarinsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, í sama streng.