Tékkneski hlauparinn René Kujan lauk hringferð sinni um Ísland um kl. 18 í kvöld þegar hann hljóp í mark í Elliðaárdal í Reykjavík. Þar lagði hann af stað í ferðalag sitt um landið hinn 23. september sl.
Kujan tókst þar með að hlaupa hringinn um landið á 30 dögum, en það svaraði til þess að hann hlypi eitt maraþonhlaup daglega.
Rene lenti í alvarlegu bílslysi hinn 23. september fyrir fimm árum. Sama mánaðardag byrjaði hann að hlaupa hér á landi. Í fyrstu var honum vart hugað líf og síðar var búist við því að hann yrði bundinn við hjólastól til æviloka. Með réttri meðhöndlun náði hann sér aftur á strik.
Rene stendur fyrir söfnun hér á landi og mun upphæðin ganga til íþróttafélags fatlaðra á Íslandi og til fatlaðra í Prag í Tékklandi. Þeir sem vilja styrkja hann geta hringt í 9087-997 fyrir 1000 kr. framlag, 9087-998 fyrir 2000 kr. framlag og 9087-999 fyrir 5000 kr. framlag.