Öllum 12 ára stúlkum, sem eru í 7. bekk grunnskóla, býðst nú ókeypis HPV-bólusetning gegn leghálskrabbameini. Bólusetningin hófst haustið 2011, en þá voru stúlkur fæddar árið 1998 og 1999 bólusettar. Foreldrar og forráðamenn eldri stúlkna verða hins vegar að greiða sjálfir fyrir bólusetninguna, en kostnaðurinn getur numið um 80.000 kr.
Fram kemur á vef landlæknisembættisins að HPV-veiran (Human Papilloma Virus) sé aðalorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. Veiran er mjög algeng og er talið að um 80% kvenna smitist af henni einhvern tímann á ævinni. Veiran smitast við kynmök og er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.
„Tólf og þrettán ára stúlkum var boðið upp á þetta í fyrra. Síðan er 12 ára stúlkum boðið upp á þetta núna áfram. Ef foreldrar vilja láta bólusetja eldri stúlkur sem þeir eiga þá verða þeir að borga það sjálfir. Þeir verða þá að fá bóluefnið á recepti frá lækni, því bóluefnið flokkast sem lyf,“ segir Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnasviði landlæknisembættisins, í samtali við mbl.is
Foreldri sem hafði samband við mbl.is undrast hvers vegna kostnaðurinn við bólusetningu dóttur sinnar, sem sé orðin 15 ára gömul, skuli vera svona hár. Þórólfur segir að þetta séu mörkin sem hafi verið sett, en í samræmi við samþykkt Alþingis frá því í lok árs 2010 hófu heilbrigðisyfirvöld bólusetningar gegn HPV-veirunni á síðasta ári. Þórólfur bendir á að 12 ára þyki vera heppilegur aldur því þá sé verið að bólusetja grunnskólabörn gegn MMR (gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt).
„Út af þessum fjárhagsramma þá var ekki talið hægt að bjóða þetta fleirum,“ segir Þórólfur og bætir við að landlæknisembættinu hafi borist fjöldi fyrirspurna í tengslum við bólusetninguna og kostnaðinn. „Við erum ekki með fjárheimild fyrir meiru,“ bætir hann við.
Þórólfur bendir á að tvö bóluefni standi mönnum til boða, Cervarix og Gardasil en Cervarix er notað hér í almennum bólusetningum. Alls eru stúlkunum gefnar þrjár sprautur á um það bil sex mánaða tímabili. Síðarnefnda efnið er dýrara og samkvæmt upplýsingum úr lyfjaverðskrá er kostar skammturinn um það bil 24.000 krónur með virðisaukaskatti. Cervarix er u.þ.b. 8 þúsund krónum ódýrara. Þórólfur bendir á að um hámarkssmásöluverð sé að ræða en svo eigi lyfsalar eftir að leggja sína álagningu á bóluefnið þannig að heildarverðið í apótekum verður því hærra.
Hvað varðar HPV-bólusetningu í nágrannalöndunum þá segir Þórólfur að það sé mjög mismunandi hvaða hópum stúlkna eða aldursbili sé boðin bólusetning. Það geti t.d. verið allar stúlkur frá 12 til 15 ára. Í Bandaríkjunum sé t.d. öllum stúlkum og konum frá 12 ára til 25 ára boðið upp á ókeypis bólusetningu. „Þetta fer eftir því hvað menn eiga mikinn pening í þetta. Það helgast ekki af neinu öðru í sjálfu sér,“ segir hann.
„Kostnaður við bólusetningu hvers árgangs stúlkna er rúmlega 20 milljónir,“ segir Þórólfur.
Hann bendir hins vegar á að því eldri sem stúlkurnar séu þegar þær eru bólusettar „þá eru minni líkur á því að árangur sjáist af bólusetningunni, þ.e. ef þær eru byrjaðar að hefja kynlíf. Ef að stúlka smitast af HPV áður en hún er bólusett þá virkar bólusetningin ekki.“ Verndin verði að vera komin á undan sýkingunni. Ekki er hægt að ráða niðurlögum sýkingarinnar sem er orðin nú þegar.“
Þórólfur segir að engin sé skyldaður til að fara í bólusetningu. Hins vegar mæli landlæknisembættið með því að allar 12 ára stúlkur þiggi bólusetninguna. „Við höfum sent öllum foreldrum 12 ára stúlkna bréf með upplýsingum um þetta,“ segir Þórólfur og bætir við að einnig sé að finna mikið af upplýsingum á vef embættisins.
„Ég held að þetta hafi tekist ágætlega og foreldrar hafa tekið bólusetningunni mjög vel,“ segir hann.
Að sögn Þórólfs nota heilbrigðisyfirvöld bóluefnið Cervarix við HPV-bólusetninguna. „Það kom nýlega rannsókn sem sýnir að bóluefnið er yfir 90% virkt í því að koma í veg fyrir þessar alvarlegu forstigsbreytingar, sem lofar mjög góðu.“
Aðspurður segir hann að á undanförnum árum - áður en heilbrigðisyfirvöld fóru að bjóða upp á bólusetningu - hafi verið talsvert um það að foreldrar stúlkna hafi keypt bóluefni svo dætur þeirra gætu verið bólusettar gegn leghálskrabbameini. „Það heldur eitthvað áfram. Það er kannski ekki mikið en það er eitthvað um það,“ segir hann.
Spurður hvort landlæknisembættið hvetji foreldra stúlkna sem eru eldri en 12 ára til að kaupa bólusetningu handa dætrum sínum segir Þórólfur að embættið hafi einfaldlega bent á þær staðreyndir sem liggi fyrir. „Að bóluefnið geti alveg verið verndandi hjá eldri stúlkum líka - þó kannski að hjá stúlkum sem eru byrjaðar að hefja kynlíf þá sé verndin minni út af líkunum á smiti. Svo höfum við líka bent á kostnaðinn af þessu en síðan verður fólk að vega það og meta hvað það vill gera.“
Í Bandaríkjunum eru drengir einnig bólusettir gegn HPV-veirunni sem getur valdið fleiri krabbameinum, t.d. í endaþarmi og ytri kynfærum. „Bóluefnið getur líka veitt einhverja vernd gegn þessum krabbameinum, þó að verndin sé kannski ekki eins mikil og í leghálskrabbameini,“ segir Þórólfur.
Aðspurður segir hann að það hafi verið töluvert rætt um það hvort bólusetja eigi drengi gegn HPV-veirunni. „Umræðan er að verða háværari. Það kæmi mér ekkert á óvart - einhverntímann á næstu árum - að það yrði gert. Þetta er líka spurning um kostnað,“ segir Þórólfur og bætir við að aðeins Bandaríkin bólusetji drengi gegn þessu.