Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að jarðskjálftarnir fyrir norðan séu ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls. Hann segir að Eyjafjarðaráll sé merkilegt fyrirbæri og þar kunni að vera gas eða olía.
Jarðskjálftarnir eiga upptök sín á mjög stóru misgengi rétt undan Norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey. Haraldur segir Eyjarfjarðarál vera stórmerkilegt fyrirbrigði. Í honum eru setlög sem eru 2-3 km þykk. „Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas- eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast. Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni. Reyndar kemur eldvirknin fram nokkru norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372,“ segir Haraldur á bloggsíðu sinni.
Jörð hefur haldið áfram að skjálfa fyrir norðan í dag. Á síðustu tveimur sólarhringum hafa tæplega 500 skjálftar komið fram á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Tjörnesbrotabeltinu.