Um 200 manns eru á biðlista eftir að komast í afeitrun á Sjúkrahúsinu Vogi og í meðferðarúrræði að því loknu. Þetta skrifar Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, í pistli sem er að finna á vef samtakanna.
„10 dagar á Vogi og 28 daga meðferð að því loknu kostar ríkissjóð aðeins rúmar 400 þúsund krónur; eða um 11 þúsund krónur á dag,“ segir Gunnar.
Hann bendir á að miðað við bandarískar rannsóknir sé kostnaður samfélagsins við að sinna ekki þessum sjúklingahópi um 15,4 milljónir króna á dag; kostnaður vegna óvirkni fólksins, notkunar þess á lyfjum og annarri læknis- og helbrigðishjálp, kostnaður vegna afbrota, slysa og félagslegrar aðstoðar.
„Með meðferð sparast þessir fjármunir; 15,4 milljónir á dag eru um 5,6 milljarðar á ári. Sparnaður kæmi ekki allur fram strax; en miðað við áætlanir Bandaríkjamanna má gera ráð fyrir að um 2 milljarðar af þeirri upphæð kæmu fram innan árins. Það er meira en þreföld sú upphæð sem ríkið leggur til starfsemi SÁÁ,“ skrifar Gunnar.