Á fyrstu níu mánuðum ársins fluttu 930 fleiri íslenskir ríkisborgarar frá landinu en til þess. Talan var 1.311 fyrir allt árið í fyrra og stefnir því í svipaðan brottflutning í ár.
Frá árinu 2008 hafa 6.887 fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu en til þess og benda tölur Hagstofunnar til að um átta af hverjum tíu séu á vinnualdri.
Þá voru tæplega 6.000 færri á lista yfir skráð vinnuafl í september en í sama mánuði ársins 2009 en þeim fækkar fjórða árið í röð. Við þetta bætast um 2.200 atvinnuleitendur sem voru í úrræðum í september.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag, að betri laun víða erlendis togi í marga Íslendinga. „Fólki býðst betri vinna og hærra launuð störf heldur en hér. Við náum ekki að snúa atvinnulífinu nógu hratt í gang. Það eru fyrst og fremst iðnaðarmenn sem hafa farið út. Engu að síður held ég að þetta sé orðið miklu breiðari hópur en fyrst eftir hrunið. Við sjáum að þegar fulltrúar norskra sveitarfélaga eru að leita að starfsmönnum á öllum sviðum, þá eru þar býsna fjölbreytt störf í boði.“