Von er á ísfisktogaranum Ásbirni RE til hafnar í Reykjavík í fyrramálið með um 115 til 120 tonna afla. Aflinn er að uppistöðu gullkarfi en einnig þorskur og ufsi sem fengust á Vestfjarðamiðum í lok veiðiferðarinnar.
Þetta kemur fram á vef HB Granda.
„Við byrjuðum á karfaveiðum á Fjöllunum og fengum þar góðan afla. Ástandið á gullkarfastofninum er gott og þetta eru okkar hefðbundnu heimamið,“ er haft eftir Friðleifi Einarssyni, skipstjóra á Ásbirni. Að hans sögn hafi verið ákveðið að ljúka veiðiferðinni á Halamiðum og freista þess að ná þar þeim þorskskammti sem skipinu er skammtaður í hverri veiðiferð.