Einni lélegustu hrefnuvertíð síðustu ára lauk nú um helgina. Hrafnreyður KÓ fór í síðustu veiðiferð ársins. Hrefnuveiðimenn veiddu samtals 51 dýr á vertíðinni en kvótinn á árinu var 216 hrefnur. Þetta kemur fram í Útvegsblaðinu.
„Í fyrra veiddist 61 hrefna en síðustu mánuði hafa verið jól í hvert sinn sem við höfum fengið dýr,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrafnreyðar ehf. Hann segir Hrafnreyði hafa farið í tvær ferðir í september sem hafi engu skilað.
Í ár hefur Hrafnreyður veitt 31 dýr en í fyrra veiddi hún 50. Markmiðið hafi verið sett á að veiða 80 dýr á þessari vertíð.
Hann segir ljóst að hrefnuveiðimenn nái ekki að anna eftirspurn eftir kjötinu í vetur. „Staðan hefur aldrei verið svona slæm.“