Lögfræðingaefnd, sem falið var að fara yfir lagatæknileg atriði varðandi tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, mun seint leggja til einhverjar grundvallarbreytingar á tillögunum enda hlutverk nefndarinnar fyrst og fremst lagatæknilegt. Þetta kom fram í máli Páls Þórhallssonar, lögfræðings í forsætisráðuneytinu, sem fer fyrir nefndinni. en hann mætti á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem fjallað var um næstu skref í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina.
Páll sagði stefnt að því að skila frumvarpi til Alþingis byggðu á tillögu stjórnlagaráðs innan tveggja vikna enda hefði nefndin fengið tilmæli um það. Alltaf hafi legið fyrir að frumvarpið þyrfti að vera tilbúið skömmu eftir þjóðaratkvæðið. Reynt yrði að standa við þann tímaramma en hugsanlega gæti nefndin þurft nokkra daga til viðbótar en hvort þess þyrfti með lægi líklega fyrir um miðja næstu viku. Vinna nefndarinnar hafi verið að vinna frumvarp sem gengi upp lagalega. Aðspurður sagðist hann eiga von á að nefndin skilaði sameiginlegri niðurstöðu.
Vonbrigði ef nefndin þarf lengri tíma
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði það nokkur vonbrigði að Páll skildi segja lögfræðinganefndina hugsanlega þurfa eitthvað lengri tíma til þess að klára vinnu við frumvarpið. Lagði hún áherslu á að ekki væri langur tími til stefnu á Alþingi til þess að klára málið og sagðist vilja brýna nefndina að spýta í lófana og klára vinnu sína sem fyrst. Undir þetta tóku bæði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, og Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði hins vegar áherslu á að nefndin tæki þann tíma sem hún þyrfti til þess að klára sína vinnu. Hann sagðist telja að það gæti þvert á móti auðveldað Alþingi að vinna málið þegar það kæmi inn til þess. Hann sagðist ekki telja að vika til eða frá skipti máli í þeim efnum. Aðalatriðið væri að verkið væri unnið eins vel og kostur væri.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Pál um afstöðu hans til þess hvort frumvarp lögfræðinganefndarinnar hefði ekki þurft að liggja fyrir áður en þjóðaratkvæðið fór fram um helgina. Valgerður sagði hins vegar ekki hlutverk Páls að svara því heldur meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Páll svaraði því að sama skapi til að það væri ekki hans hlutverk að svara slíku. Þá vakti Vigdís máls á því að umræða færi fram um málið á Alþingi eftir hádegi og spurði hvort Páll gæti upplýst nefndina eitthvað um til að mynda hugsanlegar breytingar á ákvæðum um þingkosningar en hann sagði það ekki tímabært.
Tillaga að orðalagi lögð fram síðar í dag
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Pál út í niðurstöðu þjóðaratkvæðisins varðandi þjóðkirkjuna. Hvernig yrði tekið á því máli. Hvort ákvæðið sem væri í núgildandi stjórnarskrá yrði tekið upp beint eða ekki. Páll sagði stutt síðan niðurstaða þjóðaratkvæðisins hafi legið fyrir og það væri því ekki ljóst með hvaða hætti slíkt ákvæði yrði orðað.
Valgerður skaut því hins vegar inn í að tillaga yrði lögð fram fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd síðar í dag um hugsanlegt orðalag slíks ákvæðis sem væri komin frá Hjalta Hugasyni, prófessor.