Fyrrverandi fulltrúi í stjórnlagaráði og formaður einnar af málefnanefndar ráðsins gerir alvarlegar athugasemdir við tillögu þess að nýrri stjórnarskrá í bréfi sem hann sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær. Pawel Bartoszek, stærðfræðingur sem gegndi formennsku í C-nefnd stjórnlagaráðs, telur að kalla þurfi eftir áliti sérfræðinga á sviði kosningastærðfræði, beins lýðræðis og varðandi fyrirkomulag um breytingar á stjórnarskrá sem ekki hafi reynt mögulegt á meðan ráðið starfaði.
Pawel segir fyrir það fyrsta 39. grein tillögu stjórnlagaráðs „binda hendur löggjafans varðandi fyrirkomulag kosninga til Alþingis í veigamiklum atriðum, t.d. hvað varðar fyrirkomulag persónukjörs og útdeilingu þingsæta. Af því leiðir að löggjafinn mun hafa takmarkað svigrúm til að bregðast við hugsanlegum alvarlegum ágöllum á kosningakerfinu komi þeir í ljós síðar meir,“ en í greininni er ítarlega kveðið á um fyrirkomulag þingkosninga.
Bendir hann á að tillögur stjórnlagaráðs að breytingum á kosningafyrirkomulaginu hafi hlotið takmarkaða rýningu sérfræðinga í kosningamálum. Þannig hafi ráðið óskað eftir áliti frá erlendum sérfræðingum á því sviði en svör við erindinu hins vegar ekki borist fyrr en daginn eftir að ráðið hafi lokið störfum og því ekki nýst í störfum þess. Þó nokkrar breytingar hafi hins vegar orðið á texta tillögunnar í millitíðinni og því hafi svörin ekki lengur átt við í mörgum tilfellum.
„Af þeim mætu sérfræðingum sem Alþingi hefur falið að rýna tillögur ráðsins út frá lagalegu tilliti hefur enginn, að mér vitandi, bakgrunn í kosningastærðfræði, enda verkefnið þeirrar nefndar í raun annað og afmarkarða. Því er mikilvægt að leita umsagnar aðila sem sérfróðir eru um skipulag kosninga áður en til endanlegrar afgreiðslu tillagnanna á Alþingi kemur,“ segir Pawel í bréfinu.
Tíminn ekki nýttur sem dempunartæki
Sömu athugasemdir eigi að miklu við um þær greinar tillögunnar sem snúi að beinu lýðræði en Pawel segir að heildar- og lokatillögur ráðsins svo hann viti „aldrei verið bornar undir sérfræðinga um beint lýðræði, og þá sérfræðinga er, eftir minni vitneskju, ekki að finna hér á landi.“ Leggur hann áherslu á að tillagan feli í sér miklar breytingar á íslenskri stjórnskipan sem eðli málsins samkvæmt verði ekki lagaðar eftir á.
Hvað það fyrirkomulag varðar sem kveðið er á um í tillögu stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá gerir Pawel athugasemd við að 5/6 þingmanna geti breytt stjórnarskránni samdægur sem bjóði hættunni heim. Stjórnlagaráð hafi að vísu lagt til á síðasta fundi sínum að það fyrirkomulag yrði fellt út. Umrædd grein tillögunnar sé þó eftir sem áður ófullnægjandi að hans mati.
„Stærsti galli hennar er að hún nýtir ekki tímann sem dempunartæki til að verja stjórnarskrána gegn hitamálum líðandi stundar,“ segir Pawel og bendir á að mótsögn felist í því að samkvæmt tillögunni geti þjóðaratkvæðagreiðslur um almenn lög farið fram heilu ári eftir að þeirra sé krafist en atkvæðagreiðslur um breytingar á stjórnarskrá þurfi á hinn bóginn að fara fram einum til þremur mánuðum eftir að til þeirra sé boðað. Svo skammur fyrirvari sé varhugaverður.
„Þessa grein þarf, að mínu mati, endurskoða í heild sinni og leita álits Feneyjarnefndar Evrópuráðsins um niðurstöðuna. Raunar ætti eftir fremsta megni leita eftir áliti Feneyjarnefndarinnar á tillögum ráðsins í heild sinni. Sé þess ekki kostur ætti í það minnsta að leita álits nefndarinnar á afmörkuðum þáttum tillagnanna,“ segir Pawel.
„Ég ítreka þá skoðun mína að slík rýning sérfræðinga er nauðsynleg til að ábyrgt geti talist af Alþingi að samþykkja tillögurnar óbreyttar inn í nýja stjórnarskrá,“ segir Pawel ennfremur.