Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp sem felur í sér að heimildir lögreglu til að hlera síma verða þrengdar. Skilyrði verður að rannsókn beinist að broti sem varðað getur sex ára fangelsi og að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist símhlerana.
Nái frumvarp þetta fram að ganga yrði heimild lögreglu til að beita símahlustun og skyldum aðgerðum við rannsókn mála verulega þrengd, ekki síst fyrir þá sök að sú heimild yrði í öllum tilvikum að réttlætast af því að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust þess. Gert er ráð fyrir að dómari yrði að vega og meta hverju sinni þá hagsmuni sem byggju að baki kröfu um heimild til slíkrar aðgerðar, í ljósi þeirra hagsmuna sem kynnu að verða skertir vegna hennar. „Einungis í þeim tilvikum að fyrrgreindir hagsmunir væru augljóslega brýnni en þeir síðarnefndu ætti dómari að fallast á kröfu lögreglu um heimild til að beita aðgerðinni í þágu rannsóknar,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Í frumvarpinu er vísað til sex greina í almennum hegningarlögum þegar teknar eru ákvarðanir um símhleranir, en þær fjalla um þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi, vændi, klám, vörslu og dreifingu barnakláms, frelsissviptingu, brot gegn nálgunarbanni og hótanir.
Í greinargerðinni segir að á síðustu árum hafi komið fram sú gagnrýni að skilyrði fyrir heimildum til símahlustana og skyldra aðgerða séu ekki nógu skýr og því sé heimild til slíkra aðgerða veitt í meira mæli en nauðsyn væri og án nægilegs rökstuðnings. „Ástæða er til að skýrar reglur gildi um heimildir til beitingar aðgerða á borð við símahlustun og skyldra aðgerða svo að ekki verði gripið til svo afdrifaríkrar skerðingar á friðhelgi einkalífs manna sem þær hafa í för með sér nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins í því skyni að upplýsa alvarleg brot.“