Þórarinn Ingólfsson, formaður Félags íslenskra heimilislækna, furðar sig á ummælum velferðarráðherra um heilsugæsluna. Þórarinn segir að ráðuneytið hafi unnið gegn kjarnastarfsemi heilsugæslunnar, heimilislæknamóttökunni.
Í sjónvarpsfréttum RÚV í síðustu viku svaraði velferðarráðherra spurningum fréttamanns varðandi óbreyttan fjölda læknisviðtala á dagvinnutíma og aukningu á læknisviðtölum á síðdegisvöktum heilsugæslustöðva með því að nefna tvennt: að fólk vildi heldur koma á þessum tíma og að á síðdegisvöktunum væri afkastahvetjandi launakerfi. Hann bætti við að „við þyrftum að þora að ræða þetta!“
Þórarinn segir að svona svör séu ekki sæmandi velferðarráðherra sem ber ábyrgð á skipulagi og framkvæmd heilbrigðiskerfis landsmanna. Hann bendir á að um 30-50.000 Íslendingar séu án heimilislæknis, heimilislæknum hafi fækkað umtalsvert á síðustu árum, heimilislæknastöðugildum hafi verið breytt í stöður fyrir námslækna, laun heimilislækna hafi verið skert, margir heimilislæknar taki launalaus leyfi til starfa annars staðar og stór hluti heimilislækna landsins nálgist nú eftirlaunaaldur.
„Heimilislæknar hafa nú um árabil talað fyrir því að allir borgarar þessa lands hafi nafngreindan heimilislækni sem þeir geta treyst og náð í þegar þörf krefur. Slíkt kerfi hefur fyrir löngu verið innleitt á Norðurlöndum og gefið góða raun. Heilbrigðisyfirvöld hafa hins vegar staðið á því fastar en fótunum að vandinn sé lítill. Þess er hvergi getið hvorki í stefnu ráðuneytisins, nýjum drögum að heilbrigðisáætlun eða í stefnuskrá stjórnmálaflokka að það að hafa sinn eigin fasta lækni séu réttindi borgaranna. Þvert á móti hefur ráðuneytið unnið gegn kjarnastarfsemi heilsugæslunnar, heimilislæknamóttökunni,“ segir í yfirlýsingu frá Þórarni.