„Við höfum ekki viðurkennt tilvist þessa hóps. Samfélagið verður að horfast í augu við það,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ. Hátt í 400 börn áfengissjúklinga hafa fengið sálfræðimeðferð hjá samtökunum á liðnum 4 árum, en talið er þúsundir barna búi við álag vegna neyslu foreldra án þess að fá slíka hjálp.
SÁÁ kalla nú eftir stuðningi Íslendinga við kröfu um að 10% af því gjaldi sem lagt er á áfengi verði varið til nýrra úrræða fyrir þolendur áfengis- og vímuefnavandans. Þar á meðal eru um 5.000-7.000 börn sem alast upp við mikla neyslu á heimilinu sem ógnar heilsu þeirra.
Erum á byrjunarpunkti
SÁÁ vilja tryggja þessum börnum úrræði, m.a. aðgang að sálfræðimeðferð sem verið hefur í þróun í 4 ár hjá samtökunum og gefið góða raun. Einnig hefur verið boðið upp á fjölskyldumeðferðir, til að styrkja aðstandendur og fyrir foreldra ungmenna sem eru í neyslu. Hvort veggja eru úrræði sem SÁÁ vilja efla enn frekar.
„Okkur langar mikið til að byggja enn frekar á þessum grunni og ná til fleiri barna. Einhverra hluta vegna höfum við ekki náð að opna samtal um þennan vanda og erum að mörgu leyti á byrjunarpunkti. Samfélagið þarf að taka sig saman um að það sé sjálfsagt mál að veita krökkunum stuðning og reyna að losa þau undan skömminni,“ segir Gunnar Smári.
Alkóhólistinn ekki illmenni
Flest börn áfengissjúkra eiga það sameiginlegt að byrgja tilfinningarnar inni. Þau börn sem fengið hafa sálfræðiaðstoð hjá SÁÁ opna sig þar og tala um vandann á heimilinu í fyrsta skipti. Í þessum fjölskyldum myndast oft vítahringur, því börn áfengissjúklinga eru útsettari en önnur fyrir því að þróa sjálf með sér áfengis- og vímuefnasýki seinna meir, auk geðrænna sjúkdóma og félagslegs vanda.
„Við þurfum að ná að rjúfa þennan vítahring. Það þarf að verða vitundarvakning um þennan vanda, eins og meðal þeirra sem starfa með börnum, á leikskólum, skólum og félagastarfi, að þekkja merkin. En við þurfum líka að auka aðgengið þannig að börn viti að þau eigi rétt á hjálp og að foreldrarnir séu meðvitaðir um það.“
Börnin sem fá sálfræðihjálp hjá SÁÁ koma yfirleitt í fylgd foreldra í fyrsta tíma. Gunnar Smári segir að hafa verði í huga að það séu ekki bara foreldrar sem lokið hafa meðferð sem vilja að börnin fái hjálp, heldur líka þeir sem eru í neyslu. „Oft sjáum við alkóhólistann fyrir okkur sem illmenni sem vilji ekki barninu sínu vel, en það er ekki þannig. Alkóhólistar eru alveg eins og annað fólk og vilja vera góðir foreldrar, en eru með sjúkdóm sem skerðir foreldrahæfnina.“
Þarf þorp til að ala upp barn
Styrmir Gunnarsson vakti máls á vanda barna geðsjúkra í grein í laugardagsblaði Morgunblaðsins og sagði þau á margan hátt í svipuðum sporum og börn áfengissjúkra. „Það er umhugsunarefni fyrir þá, sem starfa að þessum málefnum, hvort tilefni sé til að samræma átak til að auðvelda börnum bæði alkóhólista og geðsjúkra að takast á við þau vandamál sem þau standa frammi fyrir á heimavígstöðvum,“ skrifaði Styrmir.
Gunnar Smári tekur undir þetta. „Við sem samfélag þurfum að axla ábyrgð okkar gagnvart þessum börnum. Þau velja ekki inn í hvaða fjölskyldur þau fæðast og við hvaða aðstæður þau búa. Við höfum rofið mörk einkalífs og opinbers lífs á mörgum sviðum, eins og með líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, en við höfum ekki gert það gagnvart því álagi sem börn búa við vegna veikinda foreldra sinna. Þar með talið áfengis- og vímuefnasýki, en það á líka við um geðsjúka.“
Unnt eigi að vera að þróa úrræði fyrir bæði börn áfengissjúkra og geðsjúkra og vekja meiri vitund um stöðu beggja hópa. „Ef það á einhvern tíma við að það þurfi þorp til að ala upp barn þá er það um þessi börn. Og þá er það spurningin, eigum við sem samfélag ekki að vera þetta þorp?“