Stjórn Stjórnarskrárfélagsins lýsir yfir ánægju með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar þann 20. október. Stjórnin segir það vera bæði pólitíska og siðferðilega skyldu Alþingis að virða niðurstöðuna.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á opnum stjórnarfundi félagsins í gær.
Þar segir að stjórnin harmi „að kjörnir fulltrúar á Alþingi skuli sýna kjósendum þá vanvirðingu að kasta rýrð á þjóðaratkvæðagreiðsluna og gera lítið úr niðurstöðunni og vilja kjósenda eins og hann liggur fyrir. Slíkt athæfi er andlýðræðislegt og ætti ekki að eiga sér stað í heilbrigðu lýðræðisríki,“ segir í tilkynningunni.
„Leikreglurnar voru skýrar og það er niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar einnig. Það er pólitísk og siðferðileg skylda Alþingis að virða þá niðurstöðu.“