Mjög lítið af ársgamalli loðnu

Loðna
Loðna Af vef Síldarvinnslunnar

Loðna fannst víða í haustmælingum á stofninum sem fram fóru nú í október. Mjög lítið mældist þó af ársgamalli loðnu eða einungis um 19 milljarðar sem er langt undir þeim mörkum að hægt verði að mæla með upphafsaflamarki fyrir vertíðina 2013/2014. 

Hafrannsóknastofnunin leggur til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2012/2013 verði samtals 300 þúsund tonn.

Haustmælingar á loðnustofninum fóru fram á r.s Árna Friðrikssyni dagana 3. - 20. október með það meginmarkmið að mæla stærð veiðistofns loðnu og meta magn ungloðnu.

Á undanförnum áratug hefur reynst erfitt að mæla magn loðnu að hausti sökum vestlægrar útbreiðslu og því var, líkt og árið 2010, farið mun fyrr til rannsóknanna en á undanförunum árum. Þannig var unnt að fara miklu víðar þar sem enginn lagnaðarís var til trafala líkt og oft hefur verið í nóvember og desember, segir í frétt frá Hafrannsóknarstofnun.

Eins árs loðnan fannst einkum við Grænland

Rannsóknasvæðið náði frá landgrunninu við Austur-Grænland í vestri, þaðan norður með landgrunnskantinum að 71°N en auk þess til Grænlandssunds og Norðurmiða, allt austur að Sléttu.

Svæðið sem eins árs loðnan fannst á var einkum við Grænland (sunnan 69°N) og í kantinum útaf vestanverðu Norðurlandi. Alls mældust tæpir 34 milljarðar af kynþroska loðnu sem gert er ráð fyrir að hrygni á komandi vertíð eða rúm 800 þúsund tonn. Þar af var fjöldi tveggja ára loðnu um 21 milljarður, sem samsvarar um 470 þúsund tonnum og fjöldi þriggja ára loðnu rúmir 11 milljarðar eða um 320 þúsund tonn.

Því er ríflega þriðjungur hrygningarstofnsins samkvæmt mælingunni þriggja ára og eldri loðna en það hlutfall er með því hæsta sem mælst hefur.

Ástand loðnunnar einkar gott

„Ástand loðnunnar var einkar gott og meðalþyngd bæði tveggja og þriggja ára loðnu var óvenju há. Miðað við þessar mælingar og forsendur um náttúruleg afföll og vöxt fram að hrygningu má gera ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 720 þúsund tonn verði ekkert veitt.

Að teknu tilliti til aflareglu sem gerir ráð fyrir að skilja eftir 400 þúsund tonn til hrygningar á hrygningartíma, reiknast veiðistofn loðnu því vera rúm 300 þúsund tonn.

Hafrannsóknastofnunin leggur því til að heildaraflamark loðnu á vertíðinni 2012/2013 verði samtals 300 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnunin mun mæla veiðistofn loðnu að nýju í janúar/febrúar 2013 til samanburðar og mun endurskoða tillögur um heildaraflamark gefi niðurstöður þeirra mælinga tilefni til þess,“ segir í frétt Hafró.

Útbreiðsla loðnu
Útbreiðsla loðnu
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert