„Ég hef verið að vekja athygli á þessum sérkennilegu reiknireglum sem voru framkvæmdar í kjölfar lagasetningar ríkisstjórnarinnar á sínum tíma og þessi niðurstaða Hæstaréttar staðfestir það að verið var að hlunnfara lánþega og gæta hagsmuna fjármálafyrirtækja.“
Þetta segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is vegna niðurstöðu Hæstaréttar í síðustu viku í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka vegna gengistryggðra lána. Bendir hann meðal annars á að hann hafi á sínum tíma sett upp sérstaka reiknivél á heimasíðu sinni þar sem hægt hafi verið að fá rétta útreikninga á slíkum lánum.
„Vandinn er sá að þær eftirlitsstofnanirnar sem áttu að gæta hagsmuna lántakenda hafa brugðist. Það er svo mikilvægt að fólk geti treyst því að það fái rétta niðurstöðu. Flestir hafa sjálfsagt verið sáttir við að fá betri útreikninga en samkvæmt gamla láninu en það breytir því ekki að það hefur eftir sem áður ekki verið rétt reiknað þannig að það hallar á lántakendur,“ segir hann ennfremur.
Dómur Hæstaréttar í síðustu viku var til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun og lagði Guðlaugur fram tillögu á fundinum ásamt Pétri H. Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Lilju Mósesdóttur, þingmanni Samstöðu, þar sem meðal annars er lagt til að Ríkisendurskoðun verði falið að fara yfir málið og setja upp reiknivél vegna þess í ljósi þess að ríkið og hefðbundnar eftirlitsstofnanir þess hafi brugðist.
Tillagan í heild:
„Framkvæmd endurútreiknings erlendra lána er mikil harmsaga. Mikilvægt er að henni ljúka sem fyrst farsællega. Nýlegur dómur Hæstaréttar um mál Borgabyggðar og Arion banki er enn ein staðfesting þess að endurreikningurinn hefur ekki verið rétt framkvæmdur og hafa lántakendur borið mikinn skaða af. Aðstöðumunur er mikill á milli lántakenda og fjármálastofnana. Mikilvægt er að lántakendur geti sótt sér sem bestar upplýsingar með einföldum hætti. Því miður sýna dómar Hæstaréttar að gagnrýni á stjórnvöld og eftirlitstofnanir á fjármálamarkaði hafa átt að rök að styðjast. Þess vegna er lagt til að stofnun sem heyrir undir alþingi verði falið að setja upp reiknivélina.“