Þrír kaflar voru opnaðir í morgun á sérstakri ríkjaráðstefnu í Brussel í viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið til viðbótar við þá sem þegar hafa verið opnaðir samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Um er að ræða kafla 9 um fjármálaþjónustu, kafla 18 um hagtölur og kafla 29 um tollabandalag en fram kemur í tilkynningunni að þar með hafi samtals 21 kafli verið opnaður í viðræðunum af þeim 33 sem semja þurfi um en í heildina eru kaflar viðræðnanna 35. Viðræðum um 10 kafla hefur verið lokið til bráðabirgða.
Þá segir að Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, hafi farið fyrir íslensku sendinefndinni en í henni voru einnig Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu, Harald Aspelund, skrifstofustjóri Evrópumála í utanríkisráðuneytinu, Bryndís Kjartansdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, og Auðunn Atlason, ráðgjafi utanríkisráðherra í Evrópumálum.
Ennfremur kemur fram að næsta ríkjaráðstefna verði haldin í desember næstkomandi og verður það hin síðari í formennskutíð Kýpur hjá Evrópusambandinu sem lýkur um áramótin.