Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur mælti fyrir lagafrumvarpi á Alþingi í dag sem miðar að því að lögfesta reglu um hámarkslaun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks, þannig að þau geti aldrei orðið hærri en því sem nemur þreföldum lágmarkskjörum umbjóðenda sinna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hreyfingunni.
„Þingmenn Hreyfingarinnar, sem eru flutningsmenn frumvarpsins, telja mikilvægt að sett sé hámark á laun forsvarsmanna verkalýðsfélaga og hagsmunasamtaka launafólks. Að baki slíku hámarki séu rík sanngirnissjónarmið enda séu þessi laun greidd úr sameiginlegum sjóðum verkalýðsins. Flutningsmenn telja jafnframt rétt að vekja athygli á því að setning hámarks sem er á þennan hátt bundið lágmarkskjörum getur verið forsvarsmönnum mikilvægur hvati til að berjast fyrir bættum rétti félagsmanna þar sem hækkun lágmarkslauna getur leitt til beinnar hækkunar launa þeirra,“ segir í tilkynningunni.