Samtökin Liðsmenn Jerico sem eru landssamtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda og þeir Viðar Freyr Guðmundsson og Gunnar Halldór Magnússon Diego sem hafa staðið að gerð heimildarþátta um einelti, fengu í dag húmanistaviðurkenningu Siðmenntar.
Einnig var úthlutað Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar. Hana hlaut að þessu sinni Örnólfur Thorlacius en hann hefur verið brautryðjandi við miðlun vísindamiðlunar í sjónvarpi, dagblöðum, bókum og tímaritum, segir í fréttatilkynningu.
Þeir sem hafa fengið þá viðurkenningu á undanförnum árum eru Pétur Tyrfingsson sálfræðingur, Orri Harðarson, Ari Trausti Guðmundsson og á síðasta ári hlutu þau Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn.
Eftirtaldir aðilar hafa fengið húmanistaviðurkenninguna hingað til: Samtökin 78, Ragnar Aðalsteinsson, Tatjana Latinovic, Rauði kross Íslands, Alþjóðahús, Hörður Torfason og Páll Óskar Hjálmtýsson.